LEITIN - FORMÁLI Þessi leikur er fyrsti íslenski orðaleikurinn sem gefinn er út á Spectrum að okkur vísvitandi. Í leiknum eru hátt á þriðja hundrað borð og var erfitt að koma forritinu fyrir í minninu á Spectrum tölvunni. Leikurinn hleðst því inn í fjórum hlutum. Hluti 1 hleðst fyrst inn og nægir hann til að byrja leikinn. Hluta 2, 3 og 4 þarf ekki að hlaða inn fyrr en síðar. Myndir eru í leiknum og birtast þær efst á skjánum. Þær gefa til kynna hvernig landslagið er á þeim stað þar sem þú ert staddur. Flestir orðaleikir hafa hingað til verið á ensku og því hefur aðeins verið á færi tiltekins hóps að spila þessa leiki og skilja þá fullkomlega. En þessa annmarka gætir ekki í þessum leik og ættu því flestir að geta spreytt sig á þessu ævintýri og haft gaman af án teljandi erfiðleika. Með kveðju, Magnús Kristinn Jónsson Matthías Guðmundsson LEITIN - LEIKURINN Þú heitir Karl Hreinsson og ert rannsóknarblaðamaður á virtu náttúrulífs - og sporttímariti. Ritstjóri þinn hefur samband við þig og biður þig um að rannsaka sögusagnir um mikinn fjársjóð sem hinn frægi sjóræningi Carlos Rodriquez hafði falið á einhverri eyðieyju í fyrndinni. Ástæðuna sagði hann að heyrst hefðu raddir um það að í litlu sjávarþorpi við ströndina væri til uppdráttur af fjársjóðseyjunni en í eigu hvers væri ekki vitað. Hann lætur þig hafa pening til fararinnar og biður þig að fara á staðinn. Leitin byrjar síðan þar sem þú ert staddur í sjávarþorpinu og átt þú að finna fjársjóðskortið. Í þorpinu er einnig lítil verslun og getur þú keypt þar ýmsa hluti sem gætu komið sér vel seinna í leiknum. Þegar þér hefur tekist að finna kortið þarftu að komast á einhvern hátt til eyjarinnar þar sem fjársjóðurinn er fólginn. Er þú ert kominn á eyjuna verður þú að finna hluti sem eru víðsvegar um hana en suma þeirra þarftu nauðsynlega að nota síðar til að finna fjársjóðinn. Gangi þér vel! LEITIN - LEIÐBEININGAR HLEÐSLA - Sláið inn á tölvuna LOAD "" og ýtið á ENTER. Hlaðið inn leiknum frá byrjun á hlið A og fylgið fyrirmælum sem birtast á skjánum. LEIKURINN - Orðaleikir eru sérstök tegund tölvuleikja. Þú stjórnar ákveðinni persónu og í flestum sambærilegum orðaleikjum þarf hún að ná einhverju takmarki, sem í þessu tilviki er að finna fjársjóð. Leikurinn skiptist í svokölluð "borð" þar sem hvert borð hefur sitt sérkenni. Til að ferðast úr einu borði í annað þarf að gefa tölvunni skipun. Til þess eru notaðar allar höfuðáttirnar: NORÐUR, SUÐUR, AUSTUR OG VESTUR. Einnig er hægt að nota UPP og NIÐUR. Þegar skipun er skrifuð nægir alveg að slá inn fyrstu fjóra stafina. Dæmi: RANN í stað RANNSAKA. En þegar átt er slegin inn á tölvuna er nóg að slá inn fyrsta stafinn. Dæmi: N í stað NORÐUR. Skipanir sem tölvunni eru gefnar byggjast á í mesta lagi tveimur orðum. Það er sögnin og nafnorðið sem tekið er fram í texta. Dæmi: RANN TRE, TAKA LYKIL, OPNA HURD o.s.frv. Stundum kemur fyrir að það þarf að nota þrjú orð í skipun. Tölvan skilur ekki persónufornöfn og séríslenska stafi. SKIPANIR :- BORDA, DREKKA, STYRKUR - Þú notar sagnirnar að borða og drekka til að öðlast meiri styrk. Í upphafi er styrkurinn sýndur í toppi en smám saman lækkar hann eftir því sem þú ferðast meira um eða ef þú lendir í óhöppum. Hægt er að sjá styrk á súluriti á skjánum. Við styrkmissi er ekkert hægt að gera nema að fara bara varlega og nærast með því að borða og drekka. Mat getur þú keypt í versluninni sem er í sjávarþorpinu eða fundið á eyjunni. Vatn er aðeins hægt að fá úr lítilli á sem er einhversstaðar á eyjunni. Þú getur ekki drukkið vatn beint úr ánni heldur verður þú að láta það í ílát fyrst. GEYMA - Notar þú ef þú ert í miðjum leik og vilt geyma stöðuna á kassettu. Sums staðar í leiknum er ekki hægt að geyma stöðuna. HJÁLP - Ef þú ert lentur í ógöngum eða stendur alveg ráðþrota geturðu beðið tölvuna um hjálp. Ef tölvan telur ástæðu til þá segir hún þér frá hættum eða gefur þér ráð. Þú getur aðeins beðið um hjálp tíu sinnum. HORFA - Til að birta aftur textann í því borði sem þú ert er nóg að ýta á ENTER. KAUPA - Þú notar sögnina að KAUPA í lítilli verslun í sjávarþorpinu. Þegar þú vilt versla þá slærðu inn á tölvuna KAUPA og þá kemur fram listi með ýmsum vörutegundum. Þetta skýrir sig að mestu leyti sjálft. MEÐFERÐIS - Þú færð gefið upp hvaða hluti þú berð með þér. RANNSAKA - Þú notar rannsaka ef þú rekst á eitthvað athyglisvert í texta sem gæti leitt eitthvað meira í ljós. Dæmi: RANN SKER => "Á skerinu vex lítið tré". Skipanirnar ATHUGA og SKODA virka alveg eins og rannsaka. SLEPPA - Notarðu þegar þú vilt losa þig við einhvern hlut sem þú hefur meðferðis. Hluturinn verður þá eftir í því borði sem þú skildir við hann. TAKA - Notarðu þegar þú vilt taka með þér hlut úr borði. Dæmi: TAKA ÖXI. AÐRAR SKIPANIR - dýrka, fylla, hlusta, höggva, klifra, opna, sigla, skutla og smíða. Fyrrgreindar skipanir eru aðeins hluti af þeim skipunum sem forritið skilur. PUNKTAR :- * Reyndu að gera kort af eyjunni og skrifaðu hjá þér athugasemdir. Það auðveldar þér yfirferð síðar og hjálpar þér að ná betri árangri. * Ef þú lendir í þeirri aðstöðu að brjótast inn í hús, mundu þá að eigendum húsa er ekkert um innbrotsþjófa gefið. * Það er aðeins ein rétt leið upp á fjallið á eyjunni. * Taktu mark á vísbendingum sem þú rekst á á rölti þínu um eyjuna. * Sumir hlutir sem þú getur keypt í versluninni gætu komið að góðum notum síðar í leiknum.